154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Ég hef einmitt fylgst með Evrópureglugerðinni eftir því sem hún hefur verið að koma inn í gegnum þingið og í gegnum allar nefndir og ánægjulegt að frumvarpið sé nú fram komið. Mig langaði í fyrra andsvari mínu að spyrja aðeins dýpra út í það sem bætt er við lögin í 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um rannsóknargögn. Eins og hæstv. ráðherra benti á þá geta rannsóknargögn nýst mjög vel, t.d. þegar kemur að hlutum eins og náttúruhamförum, veðri og fleira slíku. Það er mjög athyglisvert að horfa ekki innan Evrópusambandsins heldur til Bandaríkjanna t.d. þar sem sett voru lög svipuð og þessi, um það að ef rannsóknargögn eru að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af hinu opinbera þá verða þau að vera aðgengileg endurgjaldslaust. Þegar bæði veðurgögn og jarðskjálftagögn t.d. voru gerð svona aðgengileg í Bandaríkjunum þá jukust rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði til muna. Áður fyrr þurftu menn að rukka fyrir þetta. Hér á Íslandi hefur það hins vegar verið þannig að Veðurstofan hefur verið dálítið treg stundum við að láta þessi veðurgögn og jarðskjálftagögn af hendi. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji að með samþykkt þessa frumvarps muni þessi gögn verða aðgengileg öllum þeim sem vilja stunda nýsköpun eða framkvæma rannsóknir á þessum sviðum.